top of page
Search

Ígrundun miðvikudagstíma á haustönn

  • Rín Samía Raiss
  • Nov 23, 2015
  • 4 min read

Hér á eftir fara ígrundanir mínar um fjóra miðvikudagstíma á haustönn 2015.

1. Kennslustund þann 26. ágúst 2015

Fyrsti tíminn í nýju námi er alltaf erfiður þar sem að allt er manni ókunnugt og framandi. Mér er umræðan úr kennslustundinni eftirminnilegust en ég upplifði að við stykkjum beint í djúpu laugina. Í stað þess að nota fyrsta tímann til að kynnast betur forsögu hvers annars fórum við nokkuð djúpt í kennsluna og afhverju kennarar hafi tilhneigingu (a.m.k. einhverjir einhverntímann) til að forðast erfið viðfangsefni. Tíminn var áhugaverður en mér leið eins og það hefði mátt fara hægar í sakirnar.


Eftir því sem leið á tímann leið öllum bersýnilega betur og hópurinn byrjaði smám saman að hristast saman. Það besta við tímann að mínu mati er að hann var alveg í takti við það sem á eftir átti eftir að koma. Þegar maður er ekki vanur mjög miklu hópspjalli og þaðan af síður að dæla miklu magni af hugleiðingum á Moodle kann þetta að virka svolítið mikið í fyrstu en þessar kennsluaðferðir vöndust þó nokkuð fljótt og vel.



Ígrundun kennslustundar þann 30. september 2015


Í dag fjölluðum við um fjölbreytta nemendahópa og mér þótti tíminn áhugaverður. Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið með mjög fjölbreyttan nemendahóp í minni eigin kennslu er mikilvægt að vera vel að sér um þessi mál og fær um að takast á við ólíka einstaklinga með mismunandi kennsluaðferðum. Minn hópur fjallaði um heyrnalausa nemendur og ég lærði mikið á því verkefni. Þrátt fyrir að hafa unnið mikið með fötluðum síðan á unglingsárunum verður að viðurkennast að ég hef skammarlega lítið leitt hugann að ólíkum kennsluháttum. Það sem kom mér mest á óvart er hve erfitt er fyrir kennara að nálgast fjölbreytt kennsluefni sem hæfir t.d. heyrnalausum. Ég átti ekki von á öðru en að þeim málaflokki væri vel sinnt en annað átti eftir að koma í ljós. Eftir tíman og þessa vinnu sem við hópurinn unnum saman fór ég mikið að velta fyrir mér hvort að það sé ekki þessi skortur á menntun fyrir ákveðna hópa af fötluðum sem er það sem í ruan og veru er að halda þeim sem jaðarhóp? Á meðan að allir íslendingar geta ekki sótt sér menntun vegna þess að þættir eins og heyrnaleysi standa þeim fyrir þrifum er a.m.k. ljóst að mikið verk er óunnið.


Annars kom mér sérstaklega á óvart í tímanum í dag eins og reyndar oft áður hvað sumir samnemendur mínir virðast taka sig alvarlega og hafa mjög háleitar hugmyndir um eigin aðkomu að kennslu. Ég sé sjálfa mig ekki sem einhverja björtustu framtíðarvon kennarastéttarinnar eins og sumir virðast gera. Ég trúi því hins vegar að þrátt fyrir að víða megi gera betur séum við með gott skólakerfi og góða kennara og það sé ekki endilega þörf á neinni svakalegri bylringu. Öllum á að geta liðið vel í skólanum og við sem kennaranemar þurfum líka að vera tilbúin til að taka leiðsögn og stíga varlega til jarðar.


Ígrundun kennslustundar þann 11. nóvember 2015


Í tímanum í dag var farið yfir farinn veg og rifjað upp það sem við höfum verið að fást við í vetur. Við höfum mikið verið að vinna við að kynna okkur ólíkar grundvalalrhugmyndir um kennsluaðferðir. Að því sögðu verður að viðurkennast að fyrir mína parta hefði gjarnan mátt leggja enn meiri áherslu á kennslufræðin og mér finnst að Litrófið ætti að vera skyldueign hvers kennara. Ég keypti mér bókina snemma í haust og það hefur varla liðið sá dagur að ég hef ekki stuðst við hana. Ég hef oft upplifað í vetur að það væri óskýrt til hvers væri ætlast af mér og hver tilgangurinn með ýmsu af því sem við höfum verið að gera í vetur væri. Þá hefur komið sér vel að geta skoðað Litrófið og náð áttum á ný. Bók Zevins hefur einnig nýst vel þó hún sé að sjálfsögðu ekki eins hnitmiðuð og bók Ingvars. Af því efni sem við fórum yfir úr bókinni fannst mér Aðferð samanburðar og andstæðna mjög fróðleg auk aðferðar gagnasöfnunar. Ég sé ekki fyrir mér að ég muni nýta aðferð leikrænnar tjáninagr mikið við kennslu viðskiptagreina en það er samt mjög mikilvægt að vera vel að sér í hinum ýmsu ólíku aðferðum. Það er klárt mál að maður notar aldrei aðferðir sem maður þekkir ekki.


Í lok tímans fengum við tækifæri til að tala um hvað væri áhugavert að fjalla um á vormisserinu og mér heyrist á öllu að ég geti hlakkað til krefjandi vorannar.


Ígrundun kennslustundar þann 25. nóvember 2015



Í dag kyntum við Eva verkefnið okkar um vernig nýta má púslaðferðina við kennslu í viðskiptalögfræði. Við byggðum kennsluna lauslega á reynslu okkar af kennslu en ég hafði kennt viðskiptalögræði og Eva hafði reynslu af púslaðferðinni. Ég hef persónulega mikla trú á því að samvinnunám sé góð aðferð til að koma miklu efni til skila á stuttum tíma og líka að aðferðin sé heppileg til þess að gera kennsluna skapandi og skemmtilega. Það var áhugavert að fylgjast með kynningum hinna hópanna en ljóst er að sumir eru komnir með mjög háleitar hugmyndir um að stinga á hinum ýmsu samfélagsmeinum. Ég býst við að það megi rekja mismunandi viðhorf til ólíkra greina. Við sem erum í viðskiptafræðunum virðumst allavegana vera með svipað viðhorf til kennslunnar. Mjög áhugavert að upplifa hvað fólk er hugmyndaríkt og ófeimið við að bera á borð eldfim umræðuefni. Fyrir mig persónulega er alltaf gott að fá tækifæri til að koma fram fyrir hóp og var það ein af ástæðum þess að ég valdi þetta nám. Ég er alltaf svolítið feimin og þarf aðeina að hafa fyrir því að koma mér í rétta gírinn. Það er hins vegar eitthvað sem ég tel að ég hafi gott af og eftir því sem ég geri þetta oftar og oftar verður þetta áreysnlulausara og eðlilegra.




















 
 
 

댓글


  • Facebook Black Round
  • Google+ - Black Circle
  • Tumblr Black Round

© 2023 by Walkaway. Proudly created with Wix.com

  • Facebook Black Round
  • Google+ - Black Circle
  • Twitter Black Round
bottom of page