Þriðjudagsfundir á vorönn 2016
- rin130
- Apr 30, 2016
- 13 min read

Kennarafundur þann 4. janúar
Það var mjög gaman að fá að koma á kennarafund og vafalaust verður þægilegra að koma inn á slíkan fund í framtíðinni sem kennari þegar maður hefur fyrirfram hugmynd um hvað fram fer svo mér fannst fundurinn góður undirbúningur undir kennarastarfið.
Það vakti athygli mína hve mikið var rætt um rekstur skólans á fundinum og fjárframlög. Ég gerði mér ekki grein fyrir að reksturinn væri jafn erfiður og raun ber vitni og verð að játa að ég hafði í einfeldni minni gert ráð fyrir að þegar samið væri um hærri launataxta fyrir kennara hlyti óhjákvæmilega að fylgja því að framlög frá ráðuneytinu myndu að sama skapi hækka. Því kom mér töluvert á óvart að svo sé ekki og ég skil satt best að segja ekki hvaða sanngirni felst í því að semja um hærri laun til kennara en láta skólanum ekki aukið fjármagn í té. Mér fannst líka áhugavert að starfsöryggi kennara virðist ekki vera jafn mikið og ætla mætti út frá opinberri umræðu. Að minnsta kosti gat ég ekki skilið betur en að mögulega væru uppi áhyggjur um að segja þyrfti einhverjum kennurum upp og ekki yrði næg kennsla fyrir alla. Það er að sjálfsögðu afar sorgleg staða fyrir skóla að geta jafnvel ekki haldið í fært starfsfólk vegna skertra fjárframlaga.
Þetta vakti mig að sjálfsögðu einnig til umhugsunar um mínar eigin framtíðaratvinnuhorfur í kennslu. Því miður sýnist mér ekki að nein ástæða sé til að gera endilega ræða fyrir að fá strax stöðu að námi loknu. Vonandi fæ ég þó einhvern tækifæri og ætla að reyna að láta þetta frekar verða til að hvetja mig en letja.
Eitt af því sem hafði í upphafi áhrif á ákvörðun mína um að fara í kennsluréttindanám var að ég hélt að áherslan á símenntun og endurmenntun kennarastéttarinnar væri mikil og því var ég hissa að heyra hversu erfitt er fyrir kennara að sækja endurmenntun og hve langan starfsaldur þarf til að eiga rétt á námsleyfi. Held að þetta sé eitthvað sem mætti gjarnan gera bragarbót á en reikna með að hindrunin hljóti að vera skortur á fjármagni sem virðist reyndar vera flöskuháls víða innan menntakerfisins.
Fróðlegur fundur og mér fannst afar vel til fundið að leyfa okkur að koma á þennan fund frekar en nokkra stutta fundi þar sem oft er erfitt að samræma tímasókn við starfið í MK.
12. janúar
Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari
Fundarefni: Agamál einelti og stjórnun skólans.
Í dag kom Helgi Kristjánsson og ræddi við okkur um agamál, einelti og stjórnun skólans. Það var mjög fróðlegt að spjalla við hann og heyra það sem hann hafði að segja. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir hvernig þróunin hafði verið í neyslu nemenda en það er að minnsta kosti ánægjuefni að sífellt færri eru drekka landa. Það kom mér líka á óvart að munntóbaksnotkun væri mikið vandamál og get vel skilið að oft sé erfitt að gera sér grein fyrir hvort nemendur séu að neyta munntóbaks eða ekki. Ég hef reyndar ekki verið sérstaklega vakandi fyrir því hingað til en hef aldrei orðið vör við þessa neyslu sjálf. Kennarar þurfa auðvitað að sína samstöðu eins og talað var um og gera nemendum grein fyrir því að hvers kyns tóbaksnotkun innan veggja ætti að sjálfsögðu ekki að líðast. Ég reikna með að eina leiðin til að uppræta þessa neyslu sé með miklum forvörnum og fræðslu svipað og átti sér stað í tengslum við reykingar.
Helgi talaði líka töluvert um þróunina í samskiptum við foreldra og var það sem hann hafði að segja um foreldrasamskiptin í algjöru samræmi við það sem ég hef heyrt eftir að ég hóf kennaranámið. Sífellt fleiri foreldrar krakka í menntaskóla virðast vilja hafa bein afskipti af námi barna sinna og það er greinilegt að maður þarf að vanda sig mjög mikið í samskiptum við foleldra. Það hafði ég reyndar líka heyrt frá mínum leiðsagnarkennara en það virðist skipta sérlega miklu máli að maður vandi vel til allra samskipta á prenti. Það kom mér líka algjörlega í opna skjöldu þegar Helgi talaði um að skólanum væri reglulega hótað lögsóknum af óánægðum foreldrum. Að sjálfsögðu er frábært að leggja mikla áherslu á fagmennsku og að vanda öll samskipti en ég verð að setja spurningarmerki við upp að hvaða marki eðlilegt er að markaðsvæða skólana? Það verður aldrei hægt að hugsa um skólastofnanir eins og hvert annað fyrirtæki þar sem hægt er að krefjast þjónustu með sama hætti og þegar verslað er með dauða hluti. Hversu vel tekst upp í kennslunni hlýtur að vera samspil margra ólíkra þátta og hagsmunaaðilla og nemendur og foreldrar mega að sjálfsögðu ekki líta svo á að það hversu vel tekst til liggi bara hjá kennurum og skólanum sem stofnun. Allt í allt mjög áhugaverður fundur og ég hafði sérlega gaman af því hvað Helgi var blátt áfram og opinn við okkur. Ég gæti líka vel trúað því að innan nokkurra ára yrði lítill munur á samskiptum foreldra í grunnskólanum og framhaldsskólanum við skólana og kennara. Það er greinilega þróun í þá átt að foreldrar skipta sér mun meira af starfinu sem ég tel að hljóti að hafa margar jákvæðar hliðar sem þarf að virkja skólanum til gagns.
19. janúar
Kynning á einhverfudeild
Eygló Ingólfsdóttir
Í dag vorum við svo heppin að fá að fræðast um starfsbrautina fyrir einhverfa sem í daglegu tali virðist vera nefnd einhverfudeildin. Þrátt fyrir að ég hafi mikið unnið með fötluðum hef ég ekki mikla þekkingu á málefnum einhverfra svo það var mjög gott að fá þessa fræðslu. Það er greinilega mjög metnaðarfullt starf unnið innan einhverfudeildarinnar og skiljanlegt að það sé ekki ódýrt að bjóða upp á þessa tegund náms. Þónokkur reynsla er komin á starfið þar sem brautin hefur verið starfrækt allt frá árinu 1999 og þrátt fyrir að nemendur séu fáir held ég að hún hljóti að skila miklu af sér til samfélagsins. Starfssemin er líka með þeim hætti að ég efast um að sami árangur myndi nást ef um stærri einingu væri að ræða.
Aðstaðan sem brautin hefur er alveg sérstaklega vel úr garði gerð og til fyrirmyndar. Mér fannst mjög sniðugt að hægt væri að ganga beint inn í litla forstofu deildarinnar utan frá í stað þess að þurfa að fara í gegnum langa ganga. Ennfremur tók ég eftir því hversu eflandi starfið er og vafalaust gefandi fyrir þá sem það geta að aðstoða félaga sína innan deildarinnar t.d. við ferðir í mötuneytið. Þrátt fyrir að flestir sem stunda nám við brautina komi aldrei til með ða ljúka stúdentsprófi er mikill sigur þegar einnn og einn nær því og það sýnir líka öllum hinum fram á að allt er hægt sé viljinn og rétti stuðningurinn fyrir hendi. Eygló hefur greinilega miklar tilfinningar til brautarinnar og starfssins sem þar fer fram enda hefur hún byggt það upp frá grunni. Mér fanst hún rosalega hress og kát og þrátt fyrir að starfið hennar sé vafalaust krefjandi hefur hún greinilega mikla ástríðu fyrir því og átti gott með að miðla henni til okkar. Hún vakti mig líka til umhugsunar um hve einhverfir eru breiður hópur og hver einstaklingur þarf að sjálfsögðu persónubundna aðstoða. Eins og hún sagði er auðvitað ekki rétt að áætla fyrirfram hvernig fólk er. Frábær fundur í alla staði.
26. janúar
Heimsókn í Hörðuvallaskóla í Kópavogi
Það var mjög áhugavert að skoða skólann sérstaklega þar sem ég hef mikið verið með hugann við grunnskólann síðustu mánuðina þar sem eldra barnið mitt byrjar í skóla í haust. Það vill líka svo skemmtilega til að sonur minn fer í Hraunvallaskóla sem mér skylst einmitt að sé með flesta nemendur allra grunnskóla hér á landi. Ég hef mikið vellt fyrir mér hvernig gangi að halda utan um svo stóran skóla sem líka þarf að glíma við að vera nýr og nemendafjöldinn hefur vaxið gríðarlega hratt. Fyrir mig persónulega ar því traustvekjandi að fá að koma í Hörðuvallaskóla í dag og heyra í stjórnendum.
Áberandi var hve rúmgott og fallegt húsnæðið var en það er einmitt einn þeirra þátta sem helst stendur Hraunvallaskóla fyrir þrifum og við hjónin höfum haft nokkrar áhyggjur af. Mér fanst líka mjög áhugavert að heyra að stjórnendum í Hörðuvallaskóla virðist ganga betur en kollegum þeirra í Hafnarfirði að halda í kennara en það er eitt af því sem ég spurði sérstaklega út í á fundinum þar sem ég hafði einmitt heyrt að mikil starfsmannavellta væri einn vandinn sem nýjir skólar glímdu gjarnan við. Skólinn er mjög ungur og mér fanst sýnilegt af ýmsum að starfið er greinilega í mikilli þróun og ljóst að vænta má enn frekari breytinga nú á næstu misserum þegar nýr skólastjórnandi tekur við keflinu. Ég reikna með að það hljóti að vera nokkur missir fyrir skólann þegar Helgi hættir þar sem hann kemur sérlega vel fyrir og ljóst að honum þykir mjög vænt um skólann sinn og það starf sem hann hefur náð að byggja upp. Mér fanst einmitt gott dæmi um andann í skólanum að nemendur voru ekkert feimnir við hann og hikuðu ekki við að heilsa glaðlega á göngunum.
Mér fannst áherslan á tónlistarnám einnig mjög áhugaverrð og virðist hún vera sipuð og tilstendur að innleiða í nýjum skóla hér á Völlunum sem á að opna haustið 2017. Ég þekki svo sem ekki hversu mikinn sess tónlistarnám fær almennt innan grunnskólans en ég var sjálf í Laugarnesskóla þar sem mikil áhersla var lögð á tónlistarkennslu og kórastarfs sem ég tel afar uppbyggilegt fyrir börn. Margar af mínum kærustu minningum úr grunnskóla snúa einmitt að daglega morgunsöngnum sem var svo ljúf leið til að líða inn í vinnudaginn.
Í samræmi við stefnu Kópavogsbæjar fá allir nemendur nema tíundubekkingar spjaldtölvu. Lítil reynsla virðist komin á verkefnið en vonir standa greinilega til þess að spjaldtölvurnar muni koma að gagni í skólastarfinu. Ég veit svo sem lítið sem ekki neitt um spjaldtölvuvæðinguna almennt en verð þó að segja að ég upplifði ekki á fundinum að það væri haldið mjög vel utan um samstarfið á milli foreldra og skólans varðandi spjaldtölvurnar. Það þarf að mínu mati að kenna foreldrum vel á spjaldtölvurnar og fræða um ábyrga notkun þeirra svo foreldrar séu undirbúnir undir að stýra notkuninni og fylgjast með öryggi barna sinna. Allt í allt var um skemmtilega heimsókn að ræða og mér fannst nokkuð vel tekið á móti okkur þó að svolítið furðulegt hafi verið að þau buðu ekki einu sinni upp á vatnsglas fyrr en í blálok heimsóknarinnar.
2. Febrúar
Rödd nýliðans í kennarahópnum
Í dag kom Elín Guðmannsdóttir til að fræða hópinn. Ég var því miður veik og missti af fundinum sem mér þótti mjög leiðinlegt sérstaklega vegna þess að mér langaði til að spyrja út í upplifun Elínar af vinnuálagi og kjörum.
9. Febrúar
Kynning á bóknáms-og ferðamálabrautum.
Helene Pedersen áfangastjóri bóknáms
Í dag kom Helene og ræddi við okkur um starf sitt. Það virðist vera áhugavert en krefjandi, sér í lagi á meðan bæði er verið að útskrifa nemendur eftir þriggja og fjögurra ára nám. Breytingarnar yfir í þriggja ára kerfið hafa greinilega ekki gegnið snuðrulaust fyrir sig sem er svo sem skiljanlegt þar sem um stóra breytingu er að ræða. Helene er greinilega stolt af því starfi sem fram fer á ferðamálabrautinni en það vakti sérstaka athygli mína hve fáir nemendur eru hlutfallslega að útskrifast af listabrautinni. Ég á bágt með ða skilja af hverju skólar koma sér ekki saman um frekari sérhæfingu til að geta þróað betur kjarnahæfni sína. Það var hins vegar ekker rætt á fundinum en er eitthvað sem ég hef ígrundað töluvert sér í lagi í ljósi bágrar fjárhagsstöðu skólans þar sem ákveðinn kostnaður hlýtur að vera fólgin í umsýslu um brautina. Mér fanst líka áhugavert að nemendur eru látnir vinna nokkuð stórt lokaverkefni sem ætlast er til að nýtist þeim sem undirbúningur undir áframhaldandi nám. Eitt af því sem ég hef veitt töluverða athygli í starfsnáminu er einmitt að nemendur virðast ekki vera vel læsir á hvaða heimildir eru góðar og henta við fræðileg skrif auk þess sem þeir virðast bæði kunna illa að fara með heimildir og vera illa upplýstir um mikilvægi höfundarréttarins. Því set ég spurningamerki við hvort þessum þáttum sé gert nógu hátt undir höfði í skólastarfinu. Þó kann vel að vera að þetta sé einungis upplifun mín þar sem ég hef ekki reynslu af að kenna nemendum sem eru á lokaári sínu í skólanum.
Sem fyrr segir eru nú miklar breytingar innan veggja skólans og eðlilegt að þær leggist misvel í alla hagsmunaaðilla. Mér fannst áhugavert að Helene lagði áherslu á að við gerðum okkur grein fyrir að hver og einn skóli hefur mikið um það að segja hvernig staðið er að innleiðingu breytinganna. Ljóst er að innan MK hefur stytting námsins orðið til þess að nemendur þurfa fyrr að gera sér grein fyrir hvert þeir stefna eftir að stúdentsprófinu líkur þar sem nauðsynlegt er að velja sér fög í samræmi við það. Í æfingakennslunni var mér til dæmis bent á það af nemendum sem höfðu farið á kynningardag í Háskóla Íslands að innan viðskiptafræðibrautarinnar í skólanum væri ekki í kjarna krafa um jafn mikla ensku og stærðfræði eins og Háskólinn gerir kröfu um að nemendur hafi lokið til að hefja nám í Viðskiptafræði og Hagfræði. Því þurfa nemendur sjálfir að átta sig á nógu snemma í náminu að velja þannig að þeir séu ekki að loka á ákveðna framtíðarmöguleika. Þetta kom mér mikið á óvart þar sem ég hefði gert ráð fyrir að lyki maður stúdentsprófi af viðskiptafræðibraut í MK væri maður með það kjarna sem nauðsynlegur væri til að hefja nám í Viðskiptafræði í Háskóla Íslands. Ég hef hins vegar ekki kynnt mér þetta mál neitt frekar og vel kann að vera að við upphaf náms sé vel kynnt fyrir nemendum að vera vakandi fyrir hvernig þeir haga vali sínu á valnámskeiðum til stúdentsprófs.
Í heildina litið er greinilega í afar mörg horn að líta í stórum og fjölbreyttum skóla og hugsanlega myndu fylgja því ákveðnir kostir að einbeita sér enn frekar að færri brautum.
Heimsókn í Borgarholtsskóla
Umsjón með heimsókninni hafði Sigurborg Jónsdóttir verkefnisstjóri
Borgarholtsskóli virðist að mörgu leyti vera svipaður MK og býður einnig upp á mjög fjölbreytt nám. Mér fannst heimsóknin mjög vel lukkuð sér í lagi vegna þess hve hreinskiptin og opin Bryndís Sigurjónsdóttir skólameistari var. Hún tók afskaplega vel á móti okkur og fræddi um þær mörgu hliðar sem eru á hennar krefjandi starfi. Mér fannst hún einstaklega hlýleg og eftirtektarvert var hvað hún lagði mikla áherslu á að leggja rækt við mannauðinn innan skólans. Það kom mér á þó á óvart hve mikil áhersla er enn á að krakkar klári stúdentspróf og samkvæmt Bryndísi upplifa þau oft mikinn þrýsting frá foreldrum sínum í þeim efnum. Ég hefði haldið miðað við alla þá umræðu sem á sér stað um mikilvægi iðnnáms um þessar mundir að foreldrar væru almennt jákvæðir í garð iðnnáms en það er samt kanski við því að búast að langan tíma taki að breyta þessu neikvæða viðhorfi sem lengi hefur viðgengist.
Í skólanum er einnig boðið upp á starfsbraut í eitt ár en ekki hefur náðst næg þátttaka til að unnt sé að bjóða upp á tveggja ára starfsbraut. Ég veit ekki alveg hvers vegna áhuginn er ekki meiri og sá eiginlega eftir því að hafa ekki spurt nánar út í það. Stytting námsins í þrjú ár hefur greinilega haft mikil áhrif í Borgarholtsskóla sem og annars staðar. Bryndís hafði sérstaklega orð á því að mikið hefði dregið úr íþróttakennslu sem hefur að sjálfsögðu mælst illa fyrir hjá íþróttakennurum innan skólans og valdið ákveðinni togstreitu á milli starfsmanna sem krefjandi er fyrir stjórnendur að takast á við. Eðlilegt er að ákveðin samkeppni sé á milli kennara um að missa ekki kennslu í sínu fagi og breytingar eru skiljanlega alltaf erfiðar fyrir alla hagsmunaaðilla.
Gaman var að fá fylgd um skólann og ég tók sérstaklega eftir því hvað skólinn er einstaklega snyrtilegur og meira að segja þar sem bílgreinarnar eru kenndar var allt fullkomlega hreint og snyrtilegt. Sigurborg sagði okkar að mun fleiri strákar en stelpur væru í bílgreinunum en það væru þó nokkrar og skólinn vildi gjarnan fá fleiri stelpur inn í þessar greinar sem mér fannst mjög jákvætt. Eftir túrinn um skólann var okkur boðið í hugglegt morgunkaffiborð og fengum líka tækifæri til að spjalla við kennara um starfið. Þrátt fyrir að Birgarholtsskóli sé ekki töluskóli eins og MK glíma þeir einnig við ákveðinn vanda vegna farsímaö og tölvunotkunar nemenda og ljóst er að aukna samstöðu þyrfti á meðal kennara um hvernig taki skuli á þeim málum. Allt í allt var þetta sérlega skemmtileg heimsókn og mér fannst alls staðar tekið vel á móti okkur innan skólans. Öll aðstaða var góð og heimilsleg og ég verð að segja að mér fannst mjög notalegt afdrepið sem kennarar hafa í skólanum bæði til undirbúnings og til að matast í næði.
23. febrúar
Kjaramál kennara
Anna Fanney Ólafsdóttir kennari og trúnaðarmaður
Í dag kom Anna Fanney og ræddi við okkur um kjaramál kennara. Fundurinn var ágætur en því miður gat hún ekki upplýst okkur jafn mikið um kjaramál kennara og ég hefði viljað og virtist ekki hafa undirbúið sig undir að þurfa að svara spurningum svo sem um lestur launataflna.
Greinilegt er að hún var stolt af þeim samningum sem menntaskólakennarar hafa náð á síðastliðnum árum og ég geri mér grien fyrir að það er full ástæða til þess. Anna talaði þónokkuð við okkur um áhrif nemendafjöldi í bekk og fjölda faga sem maður kennir. Það fannst mér mjög upplýsandi og greinilegt að maður þarf sjálfur að vera velvakandi fyrir að gæta eigin hagsmuna þó mér gruni nú að fyrst um sinn muni maður þurfa að prísa sig sæla með þá kennslu sem býðst. Það kom mér líka á óvart að fastráðning fengist ekki fyrr en eftir tvö ár í starfi en þó er jákvætt að maður er ráðinn frá 1. ágúst til til 31. júlí sem gefur þá færi á að leita annarar vinnu standi áframhaldandi kennsla ekki til boða. Enn og aftur fengum við að heyra frá Önnu að oftast kæmust nýútskrifaðir kennarar að í kennslu með því að byrja í afleysingum. Ég efast ekki um að það er rétt en að hefur komið mér mikið á óvart hve fáar kennarastöður eru auglýstar. Ég geri ráð fyrir að maður þurfi sjálfur að vera útsjónarsamur og duglegur að koma sér á framfæri hvernig sem maður á nú annars að fara að því. Mér fannst líka vel gert hjá skólanum að gera vel við kennara sem hafa unnið í sjö ár samfleytt í skólanum. Sjálf hef ég unnið hjá Reykjavíkurborg í 16 ár og það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað það virðist skipta stjórnendur innan borgarinnar litlu máli að halda í kjarnastarfsmenn með mikla starfsreynslu en það er nú önnur saga.
Allt í allt var þetta góður og áhugaverður fundur en að mínu mati vantaði upp á skýrleika svara varðandi launatöflurnar sem eru mjög flóknar aflestrar fyrir leikmenn.
15. mars lokafundur
Starf vetrarins í MK ígrundað
Fundurinn í dag var nokkuð góður og áhugavert að heyra í samnemendum mínum. Við erum öll svo ólík og það er athyglisvert bæði hvað við höfum upplifað æfingakennsluna með ólíkum hætti og einnig hvað við virðumst hafa verið að kenna ólíkum og fjölbreyttum hópum. Ég tjáði mig af hreinskilni um mína upplifun og tel að við höfum flest gert það þó ég viti til þess að sumir eigi í erfiðleikum með samskipti við leiðsagnarkennara en óttist neikvæðar afleiðingar af því að tjá sig sem mér finnst mjög sorglegt. Við nemendur erum að sjálfsögðu ekki bara viðtakendur í MK og berum alveg jafn mikla ábyrgð og allir aðrir á því að rýna til gagns og stuðla að heilbrigðu og uppbyggilegu starfi.
Ég hef verið mjög heppin í mínu starfsnámi, samskipti mín við alla innan skólans hafa verið góð og mér líður eins og ég hafi haft mjög gott af verunni í MK og lært mjög mikið. Áhugi minn á því að kenna er mun meiri nú en hann var þegar ég hóf námið og það segir sitt að mínu mati um hve vel heppnað starfsnámið hefur verið. Starfsnámið stendur algjörlega upp úr þegar ég lít yfir veturinn og þó mér hafi oft þótt námið krefjandi er ég mjög sátt við þann árangur sem ég hef náð og tel að það sem ég hef lært sé líklegt til að nýtast mér í hvaða starfi sem er.
Varðandi það sem ég tel að betur mætti fara í starfsnáminu snýr einungis að skipulagi funda. Að mæta alla þriðjudaga klukkan 8.20 í einungis klukkustund hentaði mér mjög illa og oftast tók mig lengri tíma að keyra fram og til baka á fundina en tíminn sem fundurinn tók. Ég tel að það væri mun betri nýting á tíma allra og líka skemmtilegra að bjóða upp á einn til tvo starfsdaga og myndi það fyrirkomulag líka bjóða upp á að borða t.d. saman hádegismat eða kvöldmat sem væri líklegt til að stuðla að sterkara tengslaneti. Heimsóknirnar í aðra skóla hafa þó staðið upp úr í mínum huga og ég myndi alls ekki viljað hafa misst af þeim.
Comments