top of page
Search

Þriðjudagsfundir á haustönn 2015

  • Rín Samía Raiss
  • Nov 23, 2015
  • 9 min read

Í vetur hef ég verið svo heppin að vera í starfsnámi í Menntaskólanum í Kópavogi (hér eftir MK). Hérna er ætlun mín að fjalla um upplifun mína af þriðjudagsfundum sem fram fóru sjö sinnum á önninni.

1. fundur 22. september

Fyrsti fundurinn var svolítið spennuþrunginn í upphafi. Ég vissi í rauninni afskaplega lítið um hvað ég væri að fara út í og slíkri óvissu fylgir alltaf óþægileg spenna. Móttökurnar voru þó eftirminnilega hlýlegar sem olli því að ég var fljót að finna mig í umhverfinu og slaka á. Á fundinum var mörgum spurningum svarað og farið í gegn um nánast allt sem ég hafði verið að velta fyrir mér sem var mikill léttir. Um leið og ég fann hve vel skipulagt allt var og fékk dagskrána fyrir fundina sá ég að það var margt áhugavert á dagskrá og ég hlakkaði strax til að takas á við verkefni vetrarins. Mér fannst líka skipta miklu máli sú áhersla sem var strax frá upphafi lögð á að við kennaranemarnir værum partur af hópnum í MK og að okkur væri velkomið að leita til Fríðu með spurningar eða hvað annað sem ræða þyrfti. Það er alltaf góð tilfinning að líða eins og maður sé virkilega velkomin og að manni sé sínt ákveðið traust og það var sú tilfinnig sem stendur upp úr í endurminnigunni. Að mínu mati hefði ekki verið hægt að biðja um fagmannlegri eða hlýlegri móttökur.

2. fundur 29. september

Margrét skólameistari kom í dag og ræddi við okkur kennaranemana. Hún var mjög hlýleg og lét okkur líða eins og við værum innilega velkomin í skólann. Mér fanst mjög áhugavert að hún sagðist líta á MK sem þjónustustofnun. Eftir að ég byrjaði í kennaranáminu hef ég orðið vör við nokkra umræðu um þetta á meðal kennara og nemenda. Sumum finnst víst að það viðhorf að skólinn sé þjónustustofnun sé varhugavert þar sem að það dragi á einhver hátt úr virðingunni fyrir skólanum og starfinu. Því er ég ekki sammála og því fanst mér viðhorf Margrétar gagnvart sínu starfi og starfseminni í skólanum mjög jákvætt og passaði það vel við mínar hugmyndir um skólastarf almennt og mig sem kennara.Mér fannst líka mjög gaman að fræðast um skipurit skólans og þá gæðastarfssemi sem er við líði í skólanum. Það verður að viðurkennast að allir gátlistarnir og gæðastaðlarnir höfðuðu sérstaklega vel til mín. Verklagsreglurnar hljóta að tryggja ákveðna straumlínlögun í rekstri skólans og ýta undir að allir gangi í takt sem hlýtur að vera mikilvægt í svo stórum skóla. Ég gerði mér heldur ekki grein fyrir að allir skólar væru skyldurgir til að nota INNU og velti svolítið fyrir mér hvernig stæði á því. Eftir að hafa kynnt mér kerfið nánar hef ég þó góðan skylning á því og geri mér grein fyrir mikilvægi þess að um slíka samhæfða skráningu sé að ræða. Á fundinum spurði ég Margréti um það hvort notast væri við 365 gráðu mat á starfsmönnum sem hún saðgi ekki vera. Þrátt fyrir samfærandi skýringar hennar á því tel ég engu að síður að hægt væri að gagnast af því að innleiða slíkt mat þar sem ólíkir hagsmunaaðilalr geta alltaf komið með nýtt og ferskt sjónarhorn í slíkt mat. Ég veitti því einnig sérstaka athygli að einungis um einn þriðji starfsmanna kjósa að mæta í valkvætt viðtal við Margréti í kjölfar áfangamats. sem mér þótti heldur dræm þátttaka. Það kom mér líka á óvart hvernig símenntunarmálunum er háttað. Bæði hvað varðar kostnaðarþátttöku og þann tíma sem er helgaður endurmenntun kennara. Ég hafði fyrirframgefnar hugmyndir um að áhersla á þennan þátt væri mjög mikil sökum eðlis starfsins og þar af leiðandi voru upplýsingarnar sem fram komu á fundinum afar upplýsandi. Í heildina litið var þetta mjög áhugaverður fundur og stóð upp úr í dagskrá þriðjudagsfundana að mínu mati.

3. fundur 6. október

Það var mjög áhugavert og upplýsandi fyrir mig að fá Stefán og Ásgrím hópstjóra til að segja frá þverfaglegu áföngunum í skólanum. Ég gerði mér fyrir fundinn ekki grein fyrir að um slíka þverfaglega áfanga væri að ræða. Efnistökin virtust afar áhugaverð og mér fanst mjög vel gert hjá þeim að leggja mikla áherslu á að kenna nemendum að afla gagna og heimilda og hvernig ber að fara með heimildir. Í æfingakennslunni varð ég sjáf vör við að sumir nemendur eru illa upplýstir um tilgang þess að notast við heimildaskráningakerfi líkt og Apa og í stað þess að líta á það sem hjálpartæki virðast þeir upplifa að um leiðinda óþarfa sé að ræða. Því er sniðugt að allir nemendur byrji sína skólagöngu Í MK á slíkum þverfaglegum áfanga. Mér fannst líka aðdáunarvert hve mikið rými áfanginn fær í skipulagi námsbrautanna sem endurspeglar mikilvægi hans.

4. fundur 13. október

Aðalbjörg Helgadóttir áfangastjóri í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ tók afskaplega vel á móti okkur og ég hafði sérlega gaman af því að fá að skoða annan skóla. Ég reyndi að vera dugleg að spyrja spurninga og soga í mig allt sem fram fór í heimsókninni. Fyrir mig persónulega stóð upp úr að fá tækifæri til að upplifa hve ólík kennslan er í viðskiptafræðigreinunum. Það er greinilegt að það er mun minna stuðst við notkun tölva í kennslunni í Garðabænum sem ég verð að viðurkenna að fellur betur að mínum hugmyndum. Það hefur verið mín upplifun að tölvurnar trufluðu nemendur oft meira en þær hjálpuðu þeim og það er greinilegt að það er vel hægt að kenna að minnsta kosti ýmsa þætti viðskiptafræðanna vel án þess að kennslan fari fram í tölvum. Mér fannst líka afar heillandi að kennararnir eru með eigin mötuneyti. Þrátt fyrir að það sé ekkert út á framboðið í mötuneyti MK að setja þá tel ég að það myndi henta mér betur að kenna þar sem að aðstaða væri fyrir nemendur til að borða hádegismat í rólegra umhverfi án nemendanna. Það er afskaplega mikilll hávaði í mötuneytinu og líklega eru margir kennarar þreyttir eftir krefjandi vinnudaga og gætu notið þess að borða í næði. Aðalbjörg ræddi töluvert við okkur um nýjan kjarasamninga kennara og þær breytingar sem orðið hafa á greiðslum eftir nemendafjölda. Ég hef takmarkaðan skilning á því en hefði áhuga á að fræðast meira um þetta málefni eins og mér skylst að við munum fá tækifæri til að gera á komandi önn. Hún sagði okkur einnig frá því að kennarar fengju ekki lengur að halda ákveðnum stofum fyrir sína kennslu sem ég get vel skilið að sé óþægilegt. Í heildina litið var heimsóknin fræðileg og skemmtileg og vakti mig til umhugsunar um nýjar hliðar starfsins.

5. fundur 3. nóvember

Baldur Sæmundsson áfangastjóri kom og ræddi við okkur í dag. Það fór ekki á milli mála að hann er afskaplega stoltur af sínum nemendum og því námi og aðstöðu sem boðið er upp á Í MK. Að því sögðu fannst mér skína í gegn um allt sem hann sagði að hann væri ósáttur við ýmislegt í Menntamálaráðuneytinu en ég verð að viðurkenna að mér fannst ég ekki hafa nógu mikla forþekkingu til að skilja vel hvað hann átti við. Ljóst er þó að það er afar dýrt að standa fyrir verklegri kennslu í matvælagreinum eigi hún að vera á pari við það sem best gerist erlendis. Metnaðurinn fyrir náminu og sá áhugi sem hann hafði var mjög smitandi og í fyrsta sinn fann ég fyrir miklum áhuga á að fá að fræðast meira um verklega námið. Það var líka mjög gaman að fá að fara í heimsókn um verknámssvæðin og fá smávegis innsýn inn í daglegt líf nemenda og kennara í matvælaiðnaðargreinunum. Það sem helst stendur upp úr eftir fundinn er að ég gerði mér í fyrsta skipti almennilega grein fyrir því forystuhlutverki sem að skólinn gegnir í þessum grienum og hve mikil áhrif það mun koma til með að hafa þegar nemendum eldri en tuttugu og fimm ára verður ekki lengur hleypt inn í skólann.

6. fundur 10. nóvember

Ég missti því miður af þessum fundi þar sem ég var erlendis. Það var sérlega óheppilegt þar sem að ég hef mjög mikinn áhuga á samspili tilfinningalegrar heilsu nemenda og árangurs í námi. Þar sem ég hef lokið Meistaragráðu í Mannauðsstjórnun hef ég þegar fengið töluverða innsýn inn í samspil starfsánægju og innri hvata auk þess sem BS verkefni mitt í viðskiptafræði fjallaði einnig um umrædd tengsl. Ég geri ráð fyrir að sambærilegir orsakaþættir séu til staðar hjá nemendum og fólki á vinnumarkaði en áhugavert hefði verið að fræðast um það og fá tækifæri til að spyrja nánar út í hvernig brugðist er við algengum agavandamálum og brottfalli nemenda. Vonandi gefst mér færi á því síðar í námi mínu. Ábyrgð nemenda á eigin námi hefur mér einnig verið hugleikin eftir að ég hóf starfsnámið í MK og ég hef satt að segja verið mjög hugsi yfir því hvort skólakerfið sé að þróast of mikið í þá átt að nemendur taki litla ábyrgð á eigin námi. Á því hef ég þó ekki formað mér fullmótaða skoðun að svo stöddu en ég tel að það sé mikilvægur hluti þess að þróa eigin starfskenningu að mynda sér stefnu varðandi það til hvers maður ætlast af nemendum sínum. Það er í öllu falli mín skoðun að heppilegast sé að námið sé hæfilega krefjandi og að nemendur séu meðvitaðir um að þeir hafi sem mest um eigið nám og námsárangur að segja. Mínir bestu kennarar hafa verið þeir sem hafa gert hæfilegar kröfur og þannig eflt nemendur og hvatt þá til þess að tileinka sér nýja þekkingu á eigin forsendum.

7. fundur 17. nóvember

Það var að mínu mati afar kærkomið að fá tækifæri til að ræða við samnemendur mína um upplifun okkar af náminu og æfingakennslunni. Mér er ljóst að fyrir utan að við sem hópur nemenda erum ólík að eðlisfari erum við líka komin í þetta starfsnám á afar ólíkum forsendum. Ég lít þannig á námið mitt að ég muni leggja mig alla fram við að gera mitt besta til að tileinka mér alla þá þekkingu, færni og reynslu sem ég get. Ég er einfaldlega þannig gerð að ég vil alltaf reyna að gera mitt allra besta. Ég tel einnig að það sé besta leiðin fyrir mig til að átta mig á því hvort að kennsla er heppilegur starfsvettvangur fyrir mig. Það kom mér svolítið á óvart hve ólíkt viðhorfið er innan hópsins til kennslunnar og undirbúnings en engu að síður er ég afar þakklát fyrir hve einlægir nemendur voru í svörum sínum og ég gerði mitt besta til að vera það líka.Ég vonast til þess að með fleiri tækifærum til að kenna muni ég mynda mér skýrari hugmynd um hvernig ég get nálgast kennsluna á þann veg að um áhugavert og gefandi starf sé að ræða fyrir mig á sama tíma og ég get vonandi verið nemendum góður kennari. Það stendur upp úr hjá mér eftir æfingakennsluna að ég hef mjög mikinn áhuga á að koma þekkingu til skila við nemendur en mér langar einnig til að kenna nemendum ákveðin vinnubrögð og námstækni þar sem ég tel að það sé í raun og veru það sem nýtist þeim best til lengri tíma litið. Með því að tileinka sér það viðhorf að bera virðingu fyrir öðrum og sjálfum sér, gera sitt besta og vera virkur þátttakandi í eigin námi tel ég að nemendur fái í heildina litið mest út úr hvaða námi sem er. Hluti af því er að mínu mati að taka ábyrgð á eigin námi og hef ég verið hugsi yfir því hvort mögulega skorti þar á. Þessar hugrenningar mínar eru líklega afar óljósar af þessum skrifum en ég reikna með að hlutirnir skýrist á komandi ári. Á fundinum var einnig rætt um upplifun okkar af leiðsagnarkennurum okkar. Ég tel mig hafa verið afskaplega heppna með leiðsagnarkennara. Í upphafi hafði ég smávegis áhyggjur af að Þórir væri of afslappaður gagnvart því nokkuð stranga skipulagi sem ég upplifi að sé í kring um kennsluna á Menntavísindasviði. Það er til að mynda töluverð aðlögun fyrir mig eftir að hafa tekið bæði BS og Ms gráðu við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands að þurfa nú að boða forföll í kennslustundir og fylgja svo nákvæmu skipulagi. Ég var orðin afar vön því að þurfa að bera mjög mikla persónulega ábyrgð á eigin námi og því voru þetta mér mikil viðbrigði fyrir mig. Eftir því sem leið á haustið áttaði ég mig þó sífellt betur á því hve góður kennari og manneskja minn leiðsagnarkennari er. Alltaf tók hann öllum mínum hugmyndum og spurningum vel og er alltaf boðinn og búinn til að miðla á afar einlægan máta af allri sinni reynslu og þekkingu. Hann er að sjálfsögðu hokinn af reynslu og tekur öllu með miklu jafnaðargeði sem er einstaklega heppilegt fyrir mig sem á til að vera með svolítið mikla fullkomnunaráráttu. Ég get ekki sagt annað en að ég hlakka til að halda áfram að fá tækifæri til að læra af Þóri og kann vel að meta þá vinsemd, virðingu og aðstoð sem hann hefur þegar veitt mér. Ég vona bara að ég hafi náð að standa undir væntingum hans og staðið undir því trausti sem hann hefur sýnt mér. Að lokum langar mér til að nefna að það að bjóða nemendum upp á að hafa eitthvað um það segja hvernig fundunum á vorönn verður varið er vel þegið. Mér finnst það vera skýr skilaboð um einlæga ósk skólans um að kennaranemar í MK fái eins mikið út úr þessum fundum og mögulegt er og einnig á þá áherslu á að rödd nemenda skipti máli sem ég kann afar vel að meta.


 
 
 

Comments


  • Facebook Black Round
  • Google+ - Black Circle
  • Tumblr Black Round

© 2023 by Walkaway. Proudly created with Wix.com

  • Facebook Black Round
  • Google+ - Black Circle
  • Twitter Black Round
bottom of page